Greiðsluskilmálar

Last updated

April 22, 2024

I. Inngangur og gildissvið

Skilmálar þessir gilda í samningssambandi Teya Iceland hf. (“Teya” eða “Færsluhirðir”) og seljanda (”Seljandi”) vöru og/eða þjónustu sem gert hefur samning við Teya um færsluhirðingarþjónustu vegna færslna seljanda á tiltekin greiðslukort.

Teya er fjármálafyrirtæki skráð á Íslandi með kennitölu 440686-1259. Teya er með starfsleyfi frá og undir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Finna má skrá yfir íslensk fjármálafyrirtæki á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins www.fme.is. Teya er til húsa að Katrínartúni 4, 105 Reykjavík.

Teya hefur, samkvæmt samningum við kortafélögin, leyfi til að færsluhirða og vinna færslur til heimildargjafar, fjárhagsfærslna og uppgjörs.

Skilmálar þessir (eins og þeir eru á hverjum tíma) ásamt umsókn um seljandasamning og viðhengjum við hann, vinnslusamningi, verðskrá, öryggistilmælum eða ráðstöfunum, og/eða leiðbeiningum eða hverjum öðrum skjölum sem tilgreind eru á hverjum tíma sem hluti seljandasamnings, mynda “Seljandasamning” aðila.

Allar tilvísanir seljandasamnings í skilmála eru tilvísanir í skilmála þessa sem og til umsóknar um seljandasamning og viðhengja við hann, vinnslusamning, verðskrá og önnur þau skjöl sem á hverjum tíma eru skilgreind sem hluti seljandasamnings. Teya áskilur sér rétt á hverjum tíma til breytinga á skilmálum þessum eins og nánar er tilgreint í kafla IX breytingar.

Samkvæmt og í samræmi við skilmála seljandasamningsins er seljanda heimilt að bjóða viðskiptavinum sínum að greiða fyrir vöru og/eða þjónustu með kortum gefnum út undir merkjum kortafélaganna. Skilmálar þessir kveða á um þau skilyrði sem uppfyllt þurfa að vera vegna móttöku korta og innsendingar færslna í kerfi Teya til heimildagjafar, fjárhagsfærslna og uppgjörs.

Seljandasamningur tekur gildi þegar: (a) seljandi hefur sent inn umsókn um seljandasamning og Teya hefur samkvæmt umsókn gefið út seljandanúmer; eða (b) þegar seljandasamningur hefur verið undirritaður af báðum aðilum; eða (c) þegar seljandi hefur sent færslur til Teya til færsluhirðingar. Með því að gangast í samningssamband við Teya og/eða senda inn færslur vegna móttekinna korta telst seljandi hafa samþykkt skilmála þessa sem og önnur skilyrði seljandasamnings.

Skilmálar þessir taka gildi þann 4. júní 2021 og fella úr gildi fyrri skilmála.

II. Túlkun og gildissvið

1. Túlkun

1.1.Allar tilvísinar í seljandasamningi til laga, reglugerða eða reglna, þar með talið reglna kortafélaganna, teljast til gildandi laga, reglugerða og reglna eins og þau eru á hverjum tíma með breytingum, viðbótum eða uppfærslum.

1.2.Tilvísun í skilmála þessa, umsókn um seljandasamning, seljandasamning eða annað eyðublað eða skjal sem vísað er til í seljandasamningi skal teljast tilvísun í viðkomandi samning eða skjal eins og það er á hverjum tíma þ.e. með öllum samþykktum breytingum og viðaukum.

1.3. Stangist einhver ákvæða skilmála þessara á við texta ákvæðis í seljandasamningi þá skal ákvæði skilmála víkja.

1.4. Stangist ákvæði seljandasamningsins á við reglur kortafélaganna þá skal ákvæði seljandasamnings víkja.

1.5.Fyrirsagnir í seljandasamningi og tengdum skjölum eru settar til þæginda fyrir lesanda og skulu ekki hafa áhrif á túlkun viðkomandi skjala.

1.6. Þau hugtök sem skilgreind eru í skilmálum þessum skulu hafa sömu merkingu í öðrum tengdum skjölum s.s. umsókn, samningi og/eða reglum kortafélaganna.

1.7. Að öllu jöfnu skulu eintölu orð einnig ná til fleirtölu og öfugt.

1.8. Aðili telst samkvæmt samningi þessum vera einstaklingur, fyrirtæki eða eining í annars konar félagaformi (óháð því hvort viðkomandi teljist sérstök lögpersóna eða ekki).

1.9.Ef annað er ekki sérstaklega tekið fram þá skal tilvísun til aðila einnig ná til eftirmanna, framsals- og afsalshafa þeirra.

1.10.Þegar kveðið er á um bann seljanda við að aðhafast eitthvað þá innifelur slíkt bann einnig í sér skyldu seljanda til að setja bann við slíkri athöfn í starfsemi sinni.

1.11. Orð sem fylgja orðasamböndunum “þar með talið” og “til dæmis” eða öðrum sambærilegum orðasamböndum eru sett fram til frekari skýringar og skulu aldrei hafa áhrif til þrengri túlkunar texta sem þau tengjast.

2. Skilgreiningar

2.1Í seljandasamningi þessum, þar sem samhengi texta leyfir, skulu eftirfarandi hugtök skilgreind með þeim hætti sem hér segir:

Aðili að kortafélögunum: Aðili sem starfar undir leyfi eins eða fleiri kortafélaga.

CVM (Cardholder Verification Method) mörk: Fjárhæðarmörk sem kortafélögin setja vegna tiltekinna tegunda færslna.

Endurgreiðsla: Færsla sem gerð er til leiðréttingar fyrri greiðslu þ.e. endurgreiðsla upphaflegrar úttektar, s.s. þegar korthafi skilar vöru eða afpantar fyrirfram greidda vöru eða þjónustu eða af einhverjum öðrum ástæðum á rétt á endurgreiðslu t.d. vegna þess að seljandi hefur ekki afhent vöru eða þjónustu að hluta eða öllu.

Endurkrafa: Aðgerð sem skilgreind er í reglum kortafélaganna þar sem kortaútgefandi getur endurkrafið Teya um fjárhæð úttektar í heild eða að hluta og Teya getur með sama hætti krafið seljanda um sömu fjárhæð.

Endurkröfugjald: Gjald sem Teya innheimtir af seljanda vegna hverrar endurkröfu sem gerð er á færslu.

Frádráttur vegna veltutryggingar: Tilgreint hlutfall (prósenta) af heildarfjárhæð allra færslna án tilskilins frádráttar svo sem vegna þóknunar Teya og endurkrafna.

Færsla: Aðgerð framkvæmd af korthafa og seljanda sem leiðir til tilfærslu fjár af eða á reikning korthafa. Færsla telst einungis vera ”gild” þegar öll neðangreind skilyrði eru uppfyllt:

-færsla er greiðsla fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er af seljanda sjálfum frá starfsstöð seljanda;

-vara/þjónusta er samkvæmt þeim upplýsingum sem seljandi gaf um starfsemi sína á umsókn um seljandasamning;

-færslan sem og aðferð við að veita vöru/þjónustu eru í samræmi við lög, reglugerðir og reglur;

-færslan sem og aðferð við að veita vöru/þjónustu eru í samræmi við reglur kortafélaganna; og

-seljandi uppfyllir öll skilyrði seljandasamnings um færslur og vörur/þjónustu sem heimilt er að veita.

Færsla án korts: Færsla á kort þar sem korti er ekki framvísað. Til þess að taka af allan vafa þá falla hér undir allar úttektir sem myndu teljast fjarsala þ.m.t. símsala, netfærslur og greiðslur gerðar í gegnum fjarskipti s.s. með veglyklum.

Færsla með korti: Færsla þar sem korti er framvísað af korthafa á mannaðri afgreiðslustöð á þeim tíma sem færslan er gerð, færslur í hraðbanka, færslur sem framkvæmdar eru á posa með snjallsíma og færslur í sjálfsafgreiðslutækjum.

Færslufjárhæð: Heildarfjárhæð færslu eins og hún er tilgreind í uppgjöri seljanda í tilgreindri uppgjörsmynt.

Færslugjald: Fast gjald, sem leggst á hverja heimilaða/uppgerða færslu og fast gjald sem leggst á hverja hafnaða/ógilda færslu, eins og það er skilgreint í verðskrá Teya.

Færslukvittun: Rafræn eða pappírs staðfesting færslu, útbúin við sölu, sönnun kaupa eða endurgreiðslu.

Verðskrá: Gildandi verðskrá Teya, vegna þjónustu á því svæði sem seljandi starfar. Í verðskrá eru tilgreindar fjárhæðir og/eða gjöld sem greiðast skulu af seljanda og ekki eru þegar tilgreind í seljandasamningi aðila. Verðskrá Teya er aðgengileg seljanda á heimasíðu Teya. Sé ekki í gildi verðskrá fyrir það svæði sem seljandi starfar á skulu gjöld vera sérstaklega umsamin í samningi aðila.

Gjöld: Öll gjöld sem seljanda ber að greiða Teya fyrir þjónustu samkvæmt seljandasamningi, s.s. þjónustuþóknun, endurkröfugjald, færslugjald, millikortagjald, gjöld kortafélaganna og uppgjörsgjald.

Gjöld kortafélaganna: Gjöld á kortafærslur, ákveðin af kortafélögunum.

Kort: Gilt greiðslukort útgefið undir leyfum kortafélaganna eða útgáfa þess hefur með öðrum hætti hlotið samþykki kortafélaganna.

Kortafélögin: Visa Inc., MasterCard Worldwide, Unionpay International og önnur þau alþjóðleg eða svæðisbundin kortafélög sem Teya hefur á hverjum tíma heimild frá til að bjóða færsluhirðingarþjónustu. Sérstaklega er skilgreint í umsókn og/eða seljandasamningi kortum hvaða kortafélaga seljanda er heimilt að móttaka samkvæmt samningi.

Kortamerki: Einkaréttarlega varin samsetning nafns, merkis og litar sem notað er sem sjónrænt kennimark viðkomandi kortafélags.

Kortaútgefandi: Aðili sem starfar samkvæmt leyfum kortafélaganna og gefur út kort til korthafa í samræmi við reglur þeirra.

Korthafi: Einstaklingur sá er kort er gefið út til og hefur heimild til að nota útgefið kort.

Kortnúmer: Kortnúmer eða kortareikningsnúmer (e. Primarty Account Number eða PAN) er einkvæm númeraröð sem notuð er til að auðkenna kortareikning korthafa.

Kvittun vegna endurgreiðslu: Staðfesting seljanda, rafræn eða á pappír, á endurgreiðslu.

Markaðsnafn: Það nafn sem seljandi notar til kynningar og í viðskiptum á markaði (þegar ekki er notað skráð lögheiti).

MCC (Merchant Category Code): Fjögurra stafa talnaröð (kóði) sem notuð er til að auðkenna tegund viðskipta sem seljandi stundar. MCC kóðar eru settir af alþjóðlega staðlaráðinu (e. International Organization for Standardization).

Merki Teya: Nafn Teya, merki, vörumerki (skráð eða óskráð) sem og önnur orð, merki eða litir sem notuð eru til að einkenna Teya.

Millikortagjald: Gjald, greitt af með beinum eða óbeinum hætti (þ.e. í gegnum þriðja aðila) til kortaútgefanda fyrir hverja færslu og endurheimtir Teya gjaldið af seljanda.

Myntval (DCC – Dynamic Currency conversion): Færsla með eða án korts þar sem korthafi getur valið hvort hann greiði fyrir vöru/þjónustu í eigin gjaldmiðli (gjaldmiðli þess lands sem kort er gefið út í) eða staðbundins gjaldmiðils seljanda.

Neikvæð staða seljanda: Þegar samanlögð fjárhæð endurgreiðslna, endurkrafna, þóknana eða annarra krafna Teya á hendur seljanda er hærri en sem nemur uppsafnaðri veltu seljanda á sama tíma þannig að á samningi myndist skuld gagnvart Teya.

Númer seljandasamnings: Einkvæmt númer sem notað er til að auðkenna seljanda, einstaka afgreiðslutæki hans eða útibú. Nota má sama seljandanúmerið á fleiri en einni starfsstöð hafi slíkt verið sérstaklega samþykkt í seljandasamningi.

Ólögmæt færsla: Færsla eða tilraun til óréttmætrar færslu. Einkum er vísað til:

-færsla fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er af öðrum en seljanda sjálfum eða þegar færsla er gerð í þeim tilgangi að greiða öðrum en seljanda sjálfum;

-færsla fyrir vöru/þjónustu sem veitt er frá öðrum stað en starfsstöð seljanda;

-færsla fyrir vöru/eða þjónustu annarrar tegundar eða eðlis en tilgreint var í umsókn seljanda;

-færsla sem er ekki réttmæt eða sem seljandi veit eða mátti vita að sé sviksamleg eða hafi ekki verið heimiluð af korthafa;

-færsla vegna vöru/þjónustu sem brýtur í bága við lög eða reglur;

-færsla vegna vöru/þjónustu sem brýtur í bága við reglur kortafélaganna;

-færsla vegna vöru/þjónustu sem með einhverjum hætti samræmist ekki skilmálum seljandasamnings; eða

-færsla sem gerð er í þeim tilgangi að komast fram hjá ofangreindum ákvæðum.

PCI/DSS staðall: Staðall (e. The payment Card Industry (PCI) Data Security Standard (DSS)) er alþjóðlegur upplýsingaöryggisstaðall settur af Payment Card Industry Security Standards ráðinu (PCI SSC) og er birtur á vefsíðunni: http://www.pcisecuritystandards.org/.

QPS: Mastercard Quick Payment Service, þjónusta um flýtigreiðslur eins og hún er skilgreind af Mastercard.

Reglur kortafélaganna: Reglur og staðlar kortafélaganna, sem ná til þátta er tengjast greiðslukortum og kortamerkjum birtar aðilum að kortafélögunum. Reglur kortafélaganna eru aðgengilegar á vefsvæðum kortafélaganna. Það er hlutverk hvers og eins kortafélags að túlka og framfylgja eigin reglum.

Snertilaus færsla: Færsla gerð með því að korthafi ber kort eða annað tæki sem búið er rafeindabúnaði (near field communication NTC) að afgreiðslutæki.

Starfsemi umfram viðmiðunarmörk: Þegar hlutfall endurkrafna er yfir 1% af fjárhæð heildarveltu seljanda í mánuði og/eða þegar hlutfall sviksamlegra færslna er yfir 1% af fjárhæð heildarveltu í mánuði.

Starfsstöð seljanda: Staðsetning starfsstöðvar seljanda eins og hún er tilgreind í umsókn um seljandasamning, seljandasamning og/eða í kerfum Teya.

Umboðsaðili (e.Independant Sales Organization ISO): Þjónustuaðili, skráður hjá kortafélögunum, sem veitir tiltekna þjónustu s.s. sölu færsluhirðingarþjónustu, þjónustu við korthafa/seljendur, fræðslu og þjálfun seljenda og dreifingu afgreiðslutækja.

Umsókn um seljandasamning: Rafræn umsókn á vef Teya þar sem seljandi sækir um þjónustu Teya og veitir tilskildar upplýsingar.

Uppgjörsdagur: Dagurinn þegar uppgjörsfjárhæð er gerð upp við seljanda í samræmi við ákvæði seljandasamnings. Uppgjörstíðni þ.e. tími frá því færsla er send inn þar til hún er greidd skal vera skilgreind í umsókn seljanda um seljandasamning eða í öðrum skriflegum samningi aðila þar um.

Uppgjörsfjárhæð: Fjárhæð í uppgjörsmynt. Andvirði allra gildra færslna á uppgjörstímabili að frádregnum umsömdum gjöldum, kostnaði eða öðrum kröfum sem Teya er heimilt að draga frá andvirði innsendra færslna hvort sem er samkvæmt ákvæðum seljandasamnings eða lögum.

Uppgjörsmynt: Gjaldmiðill sem færslur til seljanda eru gerðar upp í. Uppgjörsmynt skal vera tilgreind í umsókn um seljandasamning eða í seljandasamningi aðila.

Veltutrygging: Veltutryggingarsjóður sem stofnast með þeim hætti að fé er haldið eftir af uppgjörum seljanda í samræmi við seljandasamning.

Vinnslusamningur: Samningur Teya og seljanda þar sem skilgreind eru skilyrði vinnslu persónuupplýsinga korthafa og/eða persónuupplýsinga tengdum færslum.

Virkir dagar: Virkir dagar eru þeir dagar þegar bankar eða aðrar fjármálastofnanir í Reykjavík eru almennt opnar fyrir viðskiptum í tilgreindri uppgjörsmynt og bankar eru opnir í heimalandi/-borg seljandafyrir viðskipti í uppgjörsmynt.

Þjónustuaðili (e.Third Party Processor (TPP)): Þjónustuveitandi sem samið hefur við seljanda um vinnslu/vísun færslna eða aðra tækniþjónustu. Aðili sem þjónar seljanda vegna afgreiðslutækja, vísun heimildabeiðna, söfnun upplýsinga á rafrænu formi, skráavinnslu og/eða aðra vinnslu korthafa- eða færsluupplýsinga telst vera þjónustuaðili.

Þjónustuvefur: Vefaðgangur fyrir seljendur í færsluhirðingarþjónustu hjá Teya, þar sem seljandi getur skoðað færslur og uppgjör, auk þess sem hann getur móttekið tilkynningar og átt samskipti við Teya með öruggum hætti.

Þjónustuveitandi (e. Service Provider): Stofnun eða lögaðili sem veitir aðilum að kortafélögunum einum eða fleiri, skilgreinda þjónustu. Þjónustuveitandi verður að vera skráður hjá kortafélögunum og er einungis heimilt að veita þá þjónustu sem tilgreind hefur verið við skráningu.

Þjónustuþóknun: Gjöld seljanda til Teya fyrir þá þjónustu sem veitt er samkvæmt seljandasamningi þ.m.t. seljandaþóknun.

Örgjörvafærsla: Færsla þar sem korthafi stingur örgjörvakorti í afgreiðslutæki sem búið er örgjörvalesara.

Öryggisatvik (e. Account Data Compromise Event): Atvik sem opnar, beint eða óbeint, fyrir óheimilan aðgang að kortakerfum og/eða kortagögnum.

Öryggisnúmer (e. Card Security Code): Öryggisnúmer sem finna má á bakhlið korts (CVC2/CVV2/CVD/CID/CAV2) og er notað til þess að framkvæma greiðslu þar sem kort er ekki á staðnum.

3D Secure: Öryggisbúnaður kortafélaganna s.s. “MasterCard SecureCode” og “Verified by Visa” notaður til þess að koma í veg fyrir sviksamlegar kortafærslur á netinu.

III. Ábyrgð og skyldur seljanda

3. Móttaka korta

3.1.Að því gefnu að farið sé að skilyrðum seljandasamnings, er seljanda heimilt að taka við kortum þeirra tegunda sem tilgreindar voru í umsókn hans um seljandasamning. Teya mun hirða færslur seljanda, annast heimildagjöf, fjárhagsfærslur og uppgjör gildra færslna. Teya ber ekki skylda til að annast færsluhirðingarþjónustu vegna færslna sem ekki eru réttmætar. Ef Teya hefur sett færsluhirðingu seljanda sérstök skilyrði þá skulu slík skilyrði teljast hluti seljandasamnings.

3.2.Það er á ábyrgð seljanda að taka í notkun og viðhalda á eigin kostnað sölu- og afgreiðslukerfi eða afgreiðslutæki (Posa) sem gera honum kleift að móttaka greiðslur með kortum í samræmi við skilmála seljandasamnings.

3.3.Seljanda er óheimilt að heimila eða senda inn færslur þar sem úttekt er gerð án korts nema slíkt hafi sérstaklega verið heimilað í seljandasamningi.

3.4.Starfsemi seljanda má ekki brjóta í bága við lög, reglugerðir eða reglur kortafélaganna. Seljandi má ekki gefa það í skyn að hann sé aðili að kortafélögunum.

3.5.Seljanda er, undantekningarlaust, óheimilt að taka á móti korti sem greiðslu fyrir eitthvað af eftirtöldu:

(a)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er af öðrum en seljanda sjálfum, eða þar sem færsla er gerð í þeim tilgangi að koma greiðslu til aðila annars en seljanda sjálfs;

(b)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er frá öðrum stað en starfsstöð seljanda;

(c)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu aðra en þá sem tilgreind var í umsókn seljanda um seljandasamning;

(d)færslu sem ekki er samþykkt af korthafa;

(e)sviksamlegum eða óréttmætum færslum;

(f)færslu sem áður hefur verið mótmælt, eldri kortafærslu, kröfu um greiðslu ógilds tékka og eða til að innheimta kröfu sem seljandi hafði áður talið ómögulegt að innheimta;

(g)greiðslu vegna vöru og/eða þjónustu sem brýtur í bága við lög eða reglur í heimalandi seljanda og/eða korthafa;

(h)greiðslu vegna vöru og/eða þjónustu sem brýtur í bága við reglur kortafélaganna;

(i)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem er til þess fallin að skaða viðskiptavild kortafélaganna, Teya, greiðslukerfi kortafélaganna og/eða draga úr virði merkja kortafélaganna og/eða Teya; eða

(j)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem á einhvern hátt brýtur í bága við ákvæði seljandasamnings eða eru framkvæmdar með það að sjónarmiði að fara í kringum ákvæði seljandasamnings.

3.6.Seljandi má ekki gera það að skilyrði fyrir móttöku korts sem greiðslu að korthafi afsali sér rétti sínum til að mótmæla færslu.

3.7.Seljandi má búa afgreiðslutæki sín þannig að við móttöku korta sem bera fleiri en eitt merki (e. co-branded) velji tækið tiltekin merki framar öðrum. Seljanda er þó ávallt óheimilt að meina korthafa að breyta vali afgreiðslutækis á því undir hvaða merki færsla skuli gerð.

3.8.Seljanda er óheimilt að gera kröfu um lágmarksfjárhæð færslu.

3.9.Seljanda er skylt að birta endanlegt verð vöru og/eða þjónustu (nema í þeim tilvikum sem hann veitir staðgreiðsluafslátt) og honum er óheimilt að bæta kostnaði eða gjöldum við þegar birt verð þegar korthafi ákveður að greiða með korti, nema slíkt sé heimilt samkvæmt lögum Evrópska efnahagssvæðisins eða lögum í heimalandi seljanda.

3.10.Seljandi má hvorki beint né óbeint krefjast þess að korthafi inni af hendi viðbótargreiðslu þegar greitt er með korti, nema slíkt sé heimilt samkvæmt lögum Evrópska efnahagssvæðisins eða lögum í heimalandi seljanda.

3.11.Seljandi skal tryggja að markaðsnafn hans sé tilgreint í tengslum við þjónustu hans og að nafnið sé sýnilegt á öllum stigum viðskiptanna við korthafa. Seljandi skal tryggja að korthafi geti treyst ábyrgð seljanda í viðskiptunum, þar með talið á afhendingu vöru og þjónustu sem greitt var fyrir, almennri þjónustu tengdri viðskiptunum og úrlausn ágreiningsmála.

3.12.Seljandi má ekki endurgreiða kortafærslu með reiðufé nema í gegnum sérstaka þjónustuleið kortafélaganna sem seljandi þarf þá að vera skráður í sem og að uppfylla þátttökuskilyrði. Seljanda er þó heimilt að greiða reiðufé sé starfsemi hans fólgin í innlausn ferðatékka, móttöku sérstakra ferðakorta sem útgefin eru af kortafélögunum eða vegna sérstakrar þjónustu um miðlun gjaldmiðla að því gefnu að Teya hafi gefið samþykki sitt fyrir því að hirða færslur hans í tengslum við slík viðskipti. Þegar slíkt á við takmarkast fjárhæð færslu ætíð við fjárhæð ferðatékka, ferðakorts eða fjárhæðar í erlendri mynt að viðbættri þóknun seljanda. Undir engum kringumstæðum er seljanda heimilt að greiða korthafa í ferðatékkum þegar ætlun var að greitt yrði fyrir vöru og/eða þjónustu með reiðufé.

3.13.Það er á ábyrgð seljanda að starfsmenn hans fari í hvívetna að ákvæðum seljandasamnings.

4. Skylda til að móttaka öll kort

4.1.Seljandi má ekki, nema þegar lög eða reglur kortafélaganna kveða á um slíkt, neita að taka við korti á grundvelli þess hver korthafi eða útgefandi korts er.

4.2.Seljandi má óska eftir, en ekki gera að skilyrði fyrir móttöku korts, að korthafi framvísi skilríkjum eða auðkenni sig á annan hátt, nema slíkt sé nauðsynlegt til að framkvæma megi viðskipti s.s. vegna sendingar eða þegar reglur kortafélaganna heimila eða kveða sérstaklega á um að afla skuli slíkra viðbótarupplýsinga.

4.3.Seljanda er skylt að gæta jafnræðis við móttöku korta sem gefin eru út innan Evrópska efnahagssvæðisins og lúta sömu milligjöldum. Seljandi má ekki stunda viðskiptahætti sem mismuna korthöfum eða hvetja viðskiptavini til að framvísa öðrum greiðslumiðlum en korti nema slíkt sé sérstaklega heimilað í lögum Evrópska efnahagssvæðisins eða lögum heimalands seljanda. Seljanda er þó aldrei skylt að taka á móti debetkortum kjósi hann að móttaka kreditkort og öfugt. Seljanda er ekki skylt að móttaka fyrirtækjakort sem gefin eru út á Evrópska efnahagssvæðinu.

4.4.Seljandi skal móttaka öll gild kort sem hann hefur heimild til að móttaka og eru útgefin utan Evrópska efnahagssvæðisins undir merkjum kortafélaganna.

5. Endurgreiðslur

5.1.Seljandi má einungis framkvæma endurgreiðslu á kortareikning korthafa þegar endurgreiða á kortafærslu sem gerð var á þann sama kortareikning í tengslum við sölu á vöru eða þjónustu.

5.2.Einungis má endurgreiða kortafærslu inn á reikning þess korts sem framvísað var í þeim viðskiptum sem verið er að endurgreiða. Endurgreiðsla skal vera í sömu mynt og upphaflega færslan og má vera að fjárhæð allt að eða jöfn upprunalegri færslu en má ekki vera hærri fjárhæðar, nema seljanda sé skylt samkvæmt lögum að bjóða uppá hærri greiðslu.

5.3.Seljandi skal greiða Teya fjárhæð endurgreiðslu að fullu, ásamt þeim gjöldum og þóknunum sem á hana leggjast, þegar hennar er krafist. Seljandi á ekki rétt á endurgreiðslu þeirra gjalda og þóknana sem hann greiddi vegna þeirrar færslu sem var endurgreidd korthafa.

5.4.Seljanda er óheimilt að greiða inn á reikning korthafa í öðrum tilvikum en þegar endurgreiða á fyrri færslu, nema slíks sé krafist af Teya, samkvæmt reglum kortafélaganna eða slíkt sé skylt lögum samkvæmt.

5.5.Teya er heimilt á hverjum tíma að loka fyrir endurgreiðslur seljanda þannig að honum verði ókleift að senda inn færslur til endurgreiðslu í gegnum Teya.

6. Trúnaðarskyldur og öryggi kortaupplýsinga

6.1.Seljandi skal gæta fyllsta trúnaðar gagnvart korthafa vegna viðskipta þeirra á milli. Seljandi ber auk þess ábyrgð á að tryggja öryggi upplýsinga korthafa og kortaupplýsinga sem miðlað er í tengslum við móttöku korta.

6.2.Seljandi skal tryggja öryggi kortaupplýsinga og við alla meðhöndlun og varðveislu þeirra skal hann gæta þess að vinnsla gagna uppfylli skilyrði PCI DSS staðals og annarra öryggisreglna kortafélaganna, óháð því hvort seljandi annast sjálfur þessa þætti eða úthýsir til þriðja aðila. Teya getur á hverjum tíma kallað eftir staðfestingu þess að framkvæmd hafi verið, af til þess hæfum aðila (QSA eða ISA), úttekt á hlítingu seljanda við staðalinn og/eða að seljandi hafi framkvæmt árlegt sjálfmat. Fyrir staðlaðan búnað sem seljandi kaupir eða leigir skal seljandi tryggja að búnaðurinn hafi gilda PADSS vottun.

6.3.Seljanda er óheimilt að óska eftir eða nota upplýsingar um kortnúmer í neinum öðrum tilgangi en til að gera gildar færslur. Seljandi má aldrei fara fram á það við korthafa að hann útfylli eyðublað eða form, þar sem óskað er upplýsinga um kortnúmer, gildistíma korts, undirritun korthafa eða nokkrar aðrar upplýsingar um kortareikning eða korthafa, þar sem upplýsingar eru sýnilegar þegar slíkt eyðublað eða form væri póstlagt s.s. póstkort. Seljandi má ekki óska eftir því að korthafi veiti skriflega upplýsingar um öryggisnúmer korts.

6.4.Seljandi má ekki undir nokkrum kringumstæðum geyma viðkvæmar kortaupplýsingar þ.m.t. upplýsingar sem finna má á rafmiðlum korts s.s. segulrönd eða örgjörva, öryggisnúmer og PIN númer.

6.5.Seljandi skal án tafar tilkynna Teya um öryggisatvik eða grun um öryggisrof eða atvik. Teya má deila slíkum upplýsingum með kortafélögunum sem og viðeigandi yfirvöldum. Komi upp öryggisatvik þá er Teya og/eða kortafélögunum heimilt að krefjast þess að PCI PFI rannsóknaraðili framkvæmi óháða rannsókn í þeim tilgangi að finna og meta orsakir, umfang, stærð, tímalengd og áhrif öryggisatviks eða mögulegs öryggisatviks. Seljandi skal veita rannsóknaraðilum án tafar þá aðstoð og aðgengi sem nauðsynlegt er vegna rannsóknar. Séu niðurstöður rannsóknar birtar seljanda en ekki Teya og/eða kortafélögunum skal seljandi miðla niðurstöðum til þeirra. Hafi rannsókn sýnt fram á að seljandi uppfyllti ekki kröfur PCI DSS staðalsins á þeim tíma sem öryggisatvik átti sér stað og að orsakir öryggisatviks megi rekja til þessa, skal seljandi bera allan kostnað af rannsókn sem og afleiddum kostnaði s.s. sektum og/eða afleiddu tjóni.

6.6.Aðilar sem annast vinnsluþjónustu fyrir seljanda (þjónustuaðili) s.s. rekstur afgreiðslutækja, færsluvísunar vegna heimildasvörunar, söfnun rafrænna upplýsinga, skráavinnslur og/eða koma að meðhöndlun korthafa- eða færsluupplýsinga með öðrum hætti, skulu vera skráðir á viðeigandi máta hjá kortafélögunum. Seljandi skal tryggja að vinnsluaðilar hafi staðist úttekt um hlítingu við PCI DSS staðal. Seljandi skal tryggja að samningar hans við vinnsluaðila innihaldi ákvæði sambærilegt við ákvæði 6.5. í skilmálum þessum. Seljanda er óheimilt að nota vinnsluaðila án fyrirfram gefins skriflegs samþykkis Teya. Seljandi skal tryggja að upplýsingum um nöfn korthafa eða kortnúmer verði ekki miðlað til vinnsluaðila sem ekki uppfylla skilyrði eða hafa ekki verið samþykktir af Teya.

6.7.Seljanda er óheimilt að upplýsa þriðja aðila um efni eða innihald seljandasamnings.

6.8.Seljandi skal ætíð fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum Teya um öryggisráðstafanir, á hvaða formi sem þeim er miðlað, hvort sem fyrirmæli eða ráðstafanir lúta að atriðum tengdum framkvæmd seljandasamnings eða nýtingar annarrar þjónustu Teya s.s. notkun þjónustuvefs. Seljanda skal jafnframt skylt að fara að kröfum Teya í tengslum við nauðsynlegar breytingar á kerfum seljanda sem tengjast Teya, svo sem vefþjónustur. Seljandi ber ábyrgð á öryggisrofum sem verða innan hans umfangs.

6.9.Prókúruhafa seljanda er veittur aðgangur að þjónustuvef Teya og ber ábyrgð á aðgangi seljanda að sem og stofnun nýrra notenda eftir því sem við á. Geymsla upplýsinga

7. Geymsla upplýsinga

7.1.Seljandi skal geyma afrit færslukvittana, rafrænar upplýsingar sem og kvittanir vegna endurgreiðslna vegna allra færslna sem sendar hafa verið til Teya í fimm (5) ár frá innsendingu.

8. Skylda til að veita Teya upplýsingar og aðgengi

8.1.Seljandi skal án tafar upplýsa Teya skriflega um:

(a)öryggisbrot eða öryggisatvik sbr. ákvæði 6.5;

(b)tap, stuld, misnotkun eða óheimila notkun afgreiðslubúnaðar eða annara kerfa sem notuð eru við meðhöndlum kortaupplýsinga eða grun um slíka notkun;

(c)meiriháttar breytingar á starfsemi seljanda;

(d)breytingar á prókúruhafa seljanda;

(e)breytingar í hóp þeirra eigenda sem skilgreindir eru sem raunverulegir eigendur og/eða á fyrirkomulagi eignarhalds seljanda; eða

(f)aðstæður sem eru til þess fallnar að hindra seljanda í að uppfylla skyldur sínar samkvæmt seljandasamningi.

8.2.Fari Teya þess á leit, skal seljandi staðfesta með skriflegum hætti hvort eitthvert af þeim atvikum sem talin eru upp í 8.1 hafi átt sér stað eða ekki.

8.3.Teya getur á hverjum tíma farið fram á að fá afhent afrit af færslukvittunum seljanda og/eða, ef við á, öðrum gögnum eða upplýsingum s.s. greiðslubeiðnum, rafrænum færsluskrám og/eða kvittunum vegna endurgreiðslna. Seljandi skal veita Teya slíkar upplýsingar innan tuttugu (20) virkra daga frá því beiðni þar um berst honum.

8.4.Teya er heimilt á hverjum tíma að framkvæma áreiðanleikakönnun á seljanda, raunverulegum eigendum, stjórnarmönnum og prókúruhöfum eftir því sem við á samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem og reglur alþjóðlegu kortafélaganna. Í tengslum við áreiðanleikakönnun og reglubundið eftirlit er Teya heimilt hvenær sem er á samningstímanum að afla upplýsinga í gegnum kerfi eða upplýsingasöfn þriðja aðila sem Teya hefur aðgang að.

8.5.Seljandi skal án tafar afhenda Teya þau gögn/upplýsingar sem félagið óskar eftir og eðlilegt er að sé miðlað vegna viðskiptanna, s.s. gögn nauðsynleg vegna áreiðanleikakönnunar og/eða gögn/upplýsingar um fjárhagsstöðu seljanda s.s. ársreikninga.

8.6.Seljandi skal verða við kröfu Teya, kortafélaga og/eða viðeigandi yfirvalda um að veita vottunar- og/eða rannsóknaraðilum aðgang að búnaði og kerfum þeim sem notuð eru við móttöku korta.

8.7.Seljandi skal veita Teya, kortafélögum og/eða viðeigandi yfirvöldum sem hafa lögsögu yfir seljanda, aðgang að starfsstöð/(vum) seljanda svo gera megi úttekt á hlítni hans við ákvæði seljandasamnings. Slíkur aðgangur skal veittur án nokkurs fyrirvara nema ef lög kveða á um að slík beiðni sé sett fram með tilteknum fresti.

9. Heimild seljanda til notkunar merkja kortafélaganna og merkja Teya

9.1.Seljandi samþykkir, nema samið hafi verið um annað við Teya og samanber ákvæði 9.2, að stilla út með áberandi hætti merkjum kortafélaganna og/eða öðru markaðsefni sem Teya afhendir honum. Seljanda er heimilt að nota merki og annað markaðsefni sem fengið hefur samþykki Teya og er ætlað til kynningar á móttöku korta hjá seljanda. Seljandi skal stilla upp merkjum sem færsluhirt eru af Teya á jafn áberandi hátt og merkjum annarra korta og greiðslumiðla. Seljanda er óheimilt að nota markaðsefni sem vísar til Teya eða kortafélaganna án samþykkis Teya.

9.2.Seljanda er ekki skylt að stilla út merkjum eða öðru markaðsefni kortafélaganna ef hann er ekki að veita þjónustu til almennings eða ef slík útstilling stríðir gegn ákvæðum gildandi laga.

9.3.Teya ábyrgist að notkun seljanda á merkjum kortafélaganna og/eða Teya, í samræmi við ákvæði samnings þessa, sé seljanda heimil og að Teya sé eigandi merkja Teya og hafi heimild kortafélaganna til notkunar merkja þeirra. Teya ábyrgist skaðleysi seljanda af öllum kröfum sem upp kunna að koma í tengslum við notkun merkja eins og hún er heimiluð samkvæmt seljandasamningi.

9.4.Teya og/eða kortafélögin geta á hverjum tíma krafist þess af seljanda að hann hætti notkun vöru- eða einkennismerkja kortafélaganna, Teya eða annars markaðsefnis sem hefur að geyma tilvísun til Teya eða einhvers kortafélaganna. Seljandi skal hætta notkun merkja um leið og honum er tilkynnt um kröfu Teya og/eða kortafélaganna þar um.

9.5.Ekki er kveðið á um neitt það í seljandasamningi sem veitir seljanda tilkall til eignar eða vörumerkjaréttar á hönnun eða hugverkum í eign Teya eða kortafélaganna. Réttur seljanda til að nota hönnun eða hugverk í eigu Teya eða kortafélaganna takmarkast við það sem heimilað er í kafla 9 í skilmálum þessum.

IV. Færslur og innsendingar

10. Heimildagjöf

10.1.Seljandi skal leita heimildar fyrir öllum færslum yfir skilgreindum heimildamörkum. Heimildamörk miðast við hámarksfjárhæð einnar einstakrar færslu sem seljanda er heimilt að senda inn án þess að hafa áður leitað heimildar útgefanda fyrir úttektinni. Heimildarmörk færslu skulu vera tilgreind í umsókn um seljandasamning. Hafi heimildarmörk ekki verið skilgreind í umsókn um seljandasamning þá teljast mörkin vera núll og seljandi skal leita heimildar vegna allra færslna. Seljandi skal tryggja að réttur MCC kóði fylgi heimildarbeiðni.

10.2.Teya rekur heimildarkerfi sem seljandi getur tengst beint í gegnum gátt Teya eða með annarri tengingu sem uppfyllir skilyrði Teya. Seljandi getur tengst kerfi að undangenginni úttekt Teya á gátt. Seljandi ber ábyrgð á að búnaður sem notaður er til að tengjast kerfum Teya uppfylli reglur kortafélaganna og ákvæði seljandasamnings.

10.3.Þó heimildarbeiðni sé samþykkt felur það ekki í sér staðfestingu á réttmæti færslu. Korthafi getur átt rétt á að endurkrefja seljanda um fjárhæð færslu samkvæmt reglum kortafélaganna óháð staðfestingu korthafa á færslu. Auk þess getur Teya hafnað færslu sem ólögmætri. Seljandi gerir sér grein fyrir að korthafi getur síðar hafnað færslum sem ekki hafa verið staðfestar með innslætti pinns, undirskrift eða notkun 3D Secure.

10.4.Teya áskilur sér rétt til að takmarka eða stöðva, ef nauðsyn krefur, móttöku korta, færslur eða viðskipti í tilteknum gjaldmiðlum. Dæmi um aðstæður þar sem Teya myndi nýta þennan rétt sinn eru m.a.:

(a)ef gjaldeyrishöft eða önnur sambærileg lög eða reglur banna miðlun færslu eða færsluupplýsinga yfir landamæri;

(b)hafi Teya eða seljandi ástæðu til að ætla að korthafi, kort eða kortnúmer hafi eða séu líkleg til að tengjast sviksamlegu athæfi eða gáleysislegri hegðun til komast yfir vöru eða þjónustu; eða sem getur leitt til þess að ekki verði hægt að innheimta úttekt af korthafa;

(c)starfsemi umfram viðmiðunarmörk;

(d)þegar Teya er kunnugt um eða grunar að færsla sé ólögmæt; (e) þegar Teya er það skylt samkvæmt lögum eða reglum kortafélaganna; eða

(f)þegar Teya veit eða grunar að starfsemi seljanda sé ekki í samræmi við ákvæði seljandasamnings og/eða reglur kortafélaganna.

(g)Endurgreiðslur seljanda, sbr. ákvæði 5.5.

11. Færslukvittanir

11.1.Afgreiðslutæki seljanda skal útbúa færslukvittun vegna hverrar færslu. Þetta á einnig við um endurgreiðslur. Afrit færslukvittunar skal afhent korthafa nema hann afþakki. 11.2. Sérhver færslukvittun skal í það minnsta innihalda eftirfarandi upplýsingar:

(a)Seljandasamningsnúmer

(b)markaðsnafn seljanda og heimilisfang (gata, borg, land);

(c)tegund færslukvittunar (greiðsla á sölustað, reiðufjárúttekt, endurgreiðsla);

(d)kortnúmer maskað þ.e. einungis eru birtir fjórir (4) síðustu tölustafir númersins. Öðrum tölustöfum er skipt út fyrir önnur tákn sem nota skal til fyllingar s.s. “X”, “*” eða “#” ekki skal nota eyður eða tölustafi;

(e)fjárhæð færslu (eða endurgreiðslu) í úttektarmynt; (f) dagsetningu færslu (eða endurgreiðslu);

(g)heimildarnúmer,;

(h)þegar um er að ræða almenna færslu þar sem kort er til staðar, rafræn skráning upplýsinga um korthafa sem lesin eru af segulrönd eða örgjörva;

(i)vegna örgjörvafærslu, merki kortafélagsins og eftir ákvörðun Teya staðfestingargildi færslunnar (í heild sinni) og tengd gögn.

(j)Þegar lesin er segulrönd þarf að gera ráð fyrir undirskriftarlínu og/eða plássi fyrir undirskrift korthafa á því eintaki færslukvittunar sem ætlað er seljanda, nema þegar slík úttekt er staðfest með PIN eða engrar staðfestingar er krafist; og

(k)á endurgreiðslukvittunum (á eingöngu við um slíkar kvittanir) þarf að gera ráð fyrir undirskrift seljanda.

11.3.Seljandi heimilar Teya að afhenda færslukvittanir, upplýsingar eða önnur gögn eða upplýsingar um færslur til umboðasaðila sinna, kortafélaganna eða annarra þeirra sem nauðsynlegt og eðlilegt er að afhenda svo Teya geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt seljandasamningi eða sem aðili að kortafélögunum.

12. Innsending færslna

12.1.Seljandi skal senda til Teya, eða aðila sem Teya tilgreinir, færslur sem framkvæmdar hafa verið en ekki áður sendar inn í kerfi Teya.

12.2.Seljandi skal senda Teya færslur innan þriggja (3) daga frá dagsetningu færslu (degi sem færsla var gerð). Þar af leiðandi skal seljandi senda inn bunka til Teya að minnsta kosti á þriggja daga fresti. Seljanda er þó heimilt að senda bunka inn oftar og er ráðlagt að senda bunka daglega.

12.3.Seljandi má ekki senda færslur í kerfi Teya fyrr en að minnsta kosti eitt af eftirfarandi hefur átt sér stað:

(a)samningur um kaup er frágenginn;

(b)vara eða þjónusta hefur verið send eða afhent. Framangreint skilyrði á þó ekki við þegar um er að ræða fyrirframgreiðslu eða greiðslu að hluta;

(c)korthafi hefur samþykkt boðgreiðslur.

12.4.Seljanda er óheimilt að senda sömu færslu inn í kerfi Teya oftar en einu sinni nema þegar 12.8 á við.

12.5.Seljanda er óheimilt að senda ólögmætar færslur inn í kerfi Teya.

12.6.Hver færsla skal búa yfir þeim upplýsingum sem skylt er að komi fram á færslukvittun, auk MCC kóða seljanda og númeri seljandasamnings nema Teya hafi samþykkt með skriflegum hætti að ekki þurfi að senda inn slíkar upplýsingar.

12.7.Hver færsla þarf að vera á formi sem uppfyllir reglur kortafélaganna.

12.8.Uppfylli innsending færsluskráar ekki skilyrði kortafélaganna, eða ef færslu fylgja ekki tilskyldar færsluupplýsingar þannig að hægt sé að útbúa fullnægjandi yfirlit fyrir korthafa, skal Teya tilkynna seljanda um slíka vankanta um leið og félaginu er um þá kunnugt. Seljanda hefur þá sjö (7) daga frá dagsetningu upprunafærslu til að endursenda færslur inn í kerfi Teya. Séu færslur sendar síðar ber seljandi ábyrgð á þeim endurkröfum sem stafa vegna endursendingarinnar.

12.9.Seljandi skal ávallt fylgja leiðbeiningum Teya, í tengslum við móttöku korta.

13. Endurkröfur og starfsemi umfram viðmiðunarmörk

13.1.Meðhöndlun endurkrafna fer samkvæmt reglum kortafélaganna. Andmælaréttur seljanda er samkvæmt endurkröfureglum viðeigandi kortafélags.

13.2.Endurkröfur eru á ábyrgð seljanda sem skal endurgreiða Teya andvirði allra endurkrafna sem falla á hann sem og endurkröfugjalda ef við á, svo sem gjalds til gerðardóms. Berist endurkrafa í annarri mynt en mynt seljanda er endurkröfufærslan umreiknuð miðað við viðmiðunargengi alþjóðlegu kortasamtakanna á skráningardegi endurkröfunnar

13.3.Sekti kortafélögin Teya sökum þess að starfsemi seljanda hefur verið umfram viðmiðunarmörk eða endurgreiðslur seljanda fari yfir 5% af heildarveltu seljanda í mánuði þá skal Teya krefja seljanda um andvirði slíkra sekta.

V. Uppgjör, gjöld og greiðsla

14. Uppgjör

14.1.Teya gerir upp við seljanda allar lögmætar færslur sem uppfylla skilyrði seljandasamnings og reglur kortafélaganna.

14.2.Á uppgjörsdegi greiðir Teya seljanda andvirði allra óuppgerðra gildra færslna sem gerðar hafa verið á uppgjörstímabilinu. Þetta á þó ekki við ef til staðar er eitthvað það sem heimilar Teya að halda eftir uppgjöri skv. ákvæði 19. gr.

14.3.Teya greiðir uppgjör inn á þann uppgjörsreikning seljanda sem hann tilgreindi í umsókn um seljandasamning. Óski seljandi eftir því að lagt verði inn á annan reikning þarf hann að senda Teya undirritað umsóknareyðublað þar sem fram koma upplýsingar um hinn nýja bankareikning. Staðfesting umsóknar um slíka breytingu felur í sér óafturkallanlega heimild Teya til að greiða inn á hinn nýja reikning. Teya getur neitað að verða við beiðni seljanda um breytingu á bankareikningi ef slíkt er til þess fallið að auka áhættu Teya.

14.4.Teya er heimilt að móttaka greiðslur frá kortafélögunum vegna úttekta sem gerðar hafa verið hjá seljanda. Seljanda er ljóst að hann á aldrei kröfu á kortafélögin beint vegna færslna sem sendar hafa verið inn í kerfi Teya.

14.5.Seljandi hefur ekki rétt á að fá greidda uppgjörsfjárhæð, þ.e. andvirði gildra færslna, inn á uppgjörsreikning fyrr en á þeim degi sem þær koma til uppgjörs samkvæmt seljandasamningi við Teya. Seljandi á ekki rétt á vaxtagreiðslum af færslum vegna tímabilsins frá innsendingu til uppgjörs og með sama hætti á seljandi ekki rétt á vöxtum af sjóðum sem haldið er eftir í tengslum við viðskiptin.

14.6.Við ákvörðun um beiðni seljanda um uppgjörstíðni aðra en mánaðarlega er litið til niðurstöðu lánshæfis- og áhættumats Teya á seljanda. Teya er heimilt hvenær sem er á samningstíma, án fyrirvara, að breyta uppgjörstíðni seljanda, á grundvelli aukinnar áhættu eða breytts lánshæfis seljanda.

14.7.Teya útbýr uppgjörsyfirlit sem aðgengilegt er seljanda vegna hvers uppgjörs. Uppgjörsyfirlit tilgreinir fjárhæð sem kemur til greiðslu sem og fjárhæð þóknunar, gjalda og annars sem draga má frá uppgjöri svo sem leiðréttar færslur og fleira.

14.8.Samþykki og/eða uppgjör færslna og/eða tilgreining þeirra í uppgjörsskjölum eða öðrum tilkynningum Teya til seljanda skal ekki á nokkurn hátt teljast staðfesting þess að Teya telji færslur gildar. Teya áskilur sér rétt til að hafna færslu á síðari stigum gerist eitthvað sem bendir til eða berist félaginu upplýsingar um að færslur hafi verið ólögmætar.

14.9.Komi til þess að samanlögð fjárhæð endurgreiðslna, endurkrafna, þóknana eða annarra krafna Teya á seljanda er hærri en sem nemur uppsafnaðri veltu seljanda á sama tíma, þannig að á samningi myndist skuld gagnvart Teya skal seljandi greiða Teya slíka skuld á gjalddaga. Gjalddagi er 7 dögum frá dagsetningu skuldar (neikvæðrar stöðu). Ef gjalddagi lendir á almennum frídegi eða helgidegi færist hann á næsta virka dag.

14.10.Seljandi hefur ekki rétt á að fá greidda uppgjörsfjárhæð, þ.e. andvirði gildra færslna, inn á uppgjörsreikning fyrr en greiðsla vegna þeirra hefur borist til Teya frá kortafélögunum og/eða viðeigandi útgefendum. Seljandi á ekki rétt á vaxtagreiðslum af færslum vegna tímabilsins frá innsendingu til uppgjörs og með sama hætti á seljandi ekki rétt á vöxtum af sjóðum sem haldið er eftir í tengslum við viðskiptin.

15. Vextir og vaxtakjör

15.1.Frá dagsetningu neikvæðrar stöðu seljanda, og fram að greiðsludegi skuldbindur seljandi sig til að greiða vexti af slíkri skuld. Frá gjalddaga, sbr. ákvæði 14.9, fram að greiðsludegi reiknast dráttarvextir samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

15.2.Vextir af skuld fara samkvæmt verðskrá Teya hverju sinni. Teya skal heimilt að breyta vöxtum, sbr. nánar ákvæði 29.1.

15.3.Við útreikning er miðað við 30 vaxtadaga í mánuði og 360 vaxtadaga í ári. Vextir reiknast af neikvæðri stöðu við lok hvers dags og færast til skuldar á samningi seljanda. Vextir reiknast ekki á þeim degi sem neikvæð staða er leiðrétt. Allar innborganir á skuld seljanda ganga fyrst til greiðslu vaxta og kostnaðar, þ.m.t. innheimtugjalda og lögmannsþóknunar þar sem við á.

16. Ólögmætar færslur

16.1.Til þess að skera úr um allan vafa þá ber Teya engin skylda til að greiða seljanda andvirði ólögmætrar færslu og seljandi hefur engan rétt til að krefja Teya um greiðslu andvirðis slíkrar færslu.

16.2.Hafi Teya greitt seljanda andvirði færslu sem síðar kemur í ljós að hafi verið ólögmæt eða fyrir því er rökstuddur grunur er Teya heimilt að endurkrefja seljanda um andvirði færslunnar auk þess sem Teya er án nokkurra takmarkana heimilt að skuldajafna andvirði hennar frá heildarfjárhæð uppgjörs/(a) seljanda.

16.3.Þrátt fyrir það sem fram kemur hér að ofan þá skal seljandi greiða Teya öll gjöld, þóknanir og kostnað af ólögmætri færslu eins og þau eru tilgreind í seljandasamningi.

16.4.Til þess að skera úr um allan vafa þá eiga greinar 15.1-15.3 við óháð því hvort Teya er skylt eða mögulegt að endurgreiða kortafélögum, kortaútgefanda eða korthafa hina ólögmætu færslu.

17. Lágmarksfjárhæð uppgjörs

17.1.Teya áskilur sér rétt til að skilgreina lágmarksfjárhæð uppgjörs. Sé uppgjör að fjárhæð jafnt eða lægra en skilgreind lágmarksfjárhæð þá frestast greiðsla þess til næsta uppgjörs.

17.2.Ef andvirði uppgjörs gildra færslna sem komið er á gjalddaga á uppgjörsdegi er lægra en lágmarksfjárhæð uppgjörsins, verður uppgjöri þeirra færslna seinkað til næsta áætlaða uppgjörsdags þar sem uppgjörsfjárhæð gildra færslna er jafnt eða hærra en lágmarksfjárhæð uppgjörs.

18. Þjónustuþóknanir og önnur gjöld

18.1Með því að samþykkja þessa skilmála staðfestir Seljandi að hann hafi óskað eftir og samþykkt Þjónustuþóknanir í sameiginlegum pakka í stað aðgreindra Þjónustuþóknana þar sem Teya innheimtir mismunandi Þjónustuþóknanir, Millikortagjöld og Gjöld Kortafélaga með tilliti til mismunandi flokka og vörumerkja Korta. Ef kostnaður að baki Færslu er hærri en Þjónustuþóknun Seljanda í sameiginlegum pakka fellur mismunurinn á Teya. Í samræmi við framangreint staðfestir Seljandi ósk sína um að Teya útlisti ekki í Seljandasamningi sérstaklega upplýsingar um mismunandi Gjöld Kortafélaga og Millikortagjöld sem að öðrum kosti ættu við. Hefði Seljandi ekki lagt fram þessa beiðni væri Seljandasamningur þessi byggður á tilboði Teya sem fæli í sér aðgreindar Þjónustuþóknanir. Vilji Seljandi skoða aðgreindar Þjónustuþóknanir Teya er hægt að nálgast frekari upplýsingar hér. Sé tilboðs með aðgreindum Þjónustuþóknunum óskað skal hafa samband við Teya.

18.2.Seljandi skal greiða Teya gjöld. Millikortagjöld, gjöld kortafélaganna og þjónustuþóknun sem rukkuð er vegna hverrar færslu skulu gjaldfærð við innsendingu færslunnar. Færslugjöldin verða gjaldfærð þegar heimild vegna færslunnar er sótt. SWIFT Uppgjörsgjöld verða gjaldfærð á uppgjörsdegi. Endurkröfugjöld verða gjaldfærð á þeim tíma sem endurkröfumálið hefst. Aðrar þjónustuþóknanir skulu gjaldfærðar á þeim tíma sem Teya veitir þjónustuna eða þegar Teya á rétt á greiðslu í samræmi við seljandasamning.

18.3.Seljandi skal að kröfu Teya greiða aðrar fjárhæðir sem tilgreindar eru í seljandasamning aðila eða vegna brota á samningi aðila, þ.m.t. endurgreiðslur, endurkröfur, endurgreiðslur vegna kostnaðar við myntbreytingu, bætur vegna sekta eða annars tjóns.

18.4.Seljandi skal vera fyllilega ábyrgur fyrir öllum kostnaði í tengslum við efndir og framkvæmd á skyldum sínum samkvæmt seljandasamningi, þ.m.t kostnaði vegna þjónustu þjónustuaðila til seljanda. Hafi Teya greitt kostnað vegna þjónustu þjónustuaðila fyrir seljanda, ber seljanda að endurgreiða Teya þann kostnað.

18.5.Teya mun að jafnaði draga öll gjöld og aðrar fjárhæðir frá uppgjöri seljanda í samræmi við ákvæði 18. Teya áskilur sér þó rétt til þess að seljandi greiði beint til Teya öll gjöld og aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya. Seljandinn hefur ekki rétt til að skuldajafna eða halda eftir gjöldum eða öðrum fjárhæðum á móti uppgjöri eða öðrum fjárhæðum. Teya áskilur sér rétt til að innheimta öll gjöld og aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya með skuldfærslu af reikningi seljanda. Til að taka af allan vafa, skulu kröfur Teya gegn seljanda, gjalda og annarra fjárhæða ekki vera takmarkaðar við fjárhæðir sem eru endurkræfar frá uppgjöri, veltutrygginga eða öðru sbr. 18. gr., og seljandi skal vera ábyrgur fyrir greiðslu allra annarra fjárhæða í tengslum við seljandasamning aðila.

19. Frádráttur, leiðréttingar og áhættustýringar

19.1.Teya er heimilt að draga frá eða leggja á, ef um leiðréttingar er að ræða sem eru til hagsbóta fyrir seljanda, andvirði færslna á gildum færslum til uppgjörs að því marki sem þær hafa ekki verið áður greiddar af seljanda til Teya, eða, ef um er að ræða leiðréttingar sem eru til hagsbóta til seljanda frá Teya til seljanda;

(a)öll gjöld;

(b)vexti;

(c)fjárhæðir vegna endurkrafna og gjalda tengdum þeim;

(d)allar endurgreiðslur;

(e)öll önnur gjöld eða frádrættir sem Teya er heimilt að gera samkvæmt seljandasamningi aðila;

(f)allar aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya samkvæmt seljandasamningi eða vegna brota á samningi aðila, þ.m.t vegna raunverulegra eða grunsamlegra ólögmætra færslna, kostnaður vegna myntbreytinga, endurgreiðsla vegna kostnaðar þjónustuaðila og/eða endugreiðslu vegna sekta og annars tjóns;

(g)skattar og opinber gjöld, þ.m.t virðisaukaskattur sem lagður er á þær fjárhæðir sem Teya greiðir til seljanda samkvæmt seljandasamningi, sem Teya síðan rukkar seljanda um og greiðir til viðeigandi yfirvalda; og

(h)leiðréttingar vegna rangra uppgjöra.

19.2.Allir frádrættir eða leiðréttingar sem gerðar eru samkvæmt þessu ákvæði skulu skráðar af Teya. Allar fjárhæðir sem dregnar eru frá, eða lagðar á andvirði færslunnar samkvæmt ákvæði 18. gr., skulu taldar greiddar á þeim degi sem frádátturinn eða leiðréttingin á sér stað.

19.3.Með fyrirvara vegna ákvæðis 18.1 og að því marki sem lög leyfa er Teya heimilt með skriflegri tilkynningu til seljanda að skuldajafna á móti skuld seljanda við Teya vegna eða í tengslum við seljandasamning aðila eða annarra samninga.

19.4.Teya áskilur sér rétt, bæði í upphafi samningssambands og sem hluta af áframhaldandi áhættumati og áhættustýringu að krefjast þess að seljandi útvegi tryggingu fyrir viðskiptunum sem Teya telur viðeigandi. Fari Teya fram á frekari tryggingar eftir að seljandasamningur hefur verið gerður, verður breytingin talin sem viðauki við seljandasamning aðila samkvæmt kafla IX. Breytingar. Ef seljandi segir ekki seljandasamningi aðila upp, samkvæmt ákvæði 30. gr., eftir að Teya hefur farið fram á frekari tryggingu, telst seljandi hafa samþykkt viðaukann.

20. Réttur Teya til að halda eftir uppgjöri

20.1.Teya hefur rétt á að halda eftir ógreiddu og/eða væntanlegu uppgjöri og/eða uppgjöri úr veltutryggingu til seljanda ef eitthvert af eftirfarandi atvikum eiga við:

(a)ef Teya grunar að um óheimilar færslur sé að ræða, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til Teya hefur gengið úr skugga um að um gildar færslur er að ræða;

(b)ef Teya eða annar aðili sem hefur umboð til þess hefur óskað eftir upplýsingum frá seljandanum í framhaldi af seljandasamningi, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til viðunandi upplýsingar hafa verið veittar að mati Teya;

(c)ef seljandi brýtur gegn seljandasamningi aðila og/eða reglum kortafélaganna, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til brotið hefur verið bætt og seljandinn hefur uppfyllt allar skuldbindingar sínar í tengslum við brotið;

(d)ef grunur er um svik hjá seljanda eða væntanlegt brot á seljandasamningi aðila og/eða reglum kortafélaganna, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til rannsókn á málinu hefur verið lokið af hálfu Teya og Teya hefur gengið úr skugga um að ekki er um svik né brot að ræða á seljandasamningi aðila og/eða reglum kortafélaganna;

(e)ef endurkröfur, endurgreiðslur og/eða aðrar aðgerðir seljanda leiða til endurgreiðsluáhættu fyrir Teya, sem ákvörðuð er af Teya, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til rannsókn á málinu er lokið af hálfu Teya og Teya hefur gengið úr skugga um að félagið sé ekki í endurgreiðsluáhættu;

(f)þegar það er mat Teya að fjárhæðir í uppgjöri seljanda í tengslum við færslur muni ekki tryggja framtíðar skuldbindingar seljanda gagnvart Teya, þ.m.t en ekki takmarkað við gjöld, endurkröfur og endurgreiðslur, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til Teya hefur gengið úr skugga um að þær fjárhæðir sem berast inn í tengslum við færslur seljanda nái yfir framtíðar skuldbindingar seljanda;

(g)ef seljandi á við fjárhagslega erfiðleika að stríða sem leitt geta til tjóns, að mati Teya, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til fjárhagserfiðleikar seljanda hafa verið leystir;

(h)þar sem þess er krafist af kortafélögunum, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri svo lengi sem þess er krafist af kortafélögunum; eða

(i)þar sem Teya er, eða er að mati Teya, ekki heimilt samkvæmt lögum að greiða til seljanda, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til Teya telur heimilt að greiða.

20.2.Að því marki sem lög leyfa, skal Teya tilkynna seljanda um þær greiðslur sem haldið er eftir og ástæðu þess að greiðslunni er haldið eftir. Teya áskilur sér rétt til að breyta eða bæta við ástæðu til að halda eftir greiðslunni komi fram nýjar upplýsingar sem gefa til kynna að Teya sé heimilt að halda eftir uppgjöri í samræmi við ákvæði 20.1.

20.3.Þegar þær aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi sem leyfa Teya að halda eftir greiðslu, ber Teya að greiða uppgjör á næsta uppgjörsdegi, að því tilskildu að engar aðstæður séu þá fyrir hendi að Teya haldi eftir greiðslunni.

VI. Persónuvernd

21. Persónuvernd

21.1.Vinnslusamingur tilgreinir þær kröfur og skilyrði seljanda við vinnslu persónuupplýsinga sem seljandi safnar um korthafa og/eða færslur sem og réttindi og skyldur Teya og seljanda. Auk þess sem ákvæði vinnslusamnings og seljandasamnings segja fyrir um meðhöndlun persónuupplýsinga, ber seljanda að fara eftir gildandi lögum og reglum um persónuvernd, þar á meðal persónuupplýsingar um korthafa eða færsluupplýsingar.

22.2.Teya leggur áherslu á upplýsingaöryggi og hefur innleitt viðeigandi öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir að gögn Seljenda, þar með talið persónuupplýsingar og gögn Korthafa, séu notuð eða aðgengileg án viðeigandi heimildar, þeim breytt eða þau birt óviðkomandi. Þar að auki, þá takmarkar Teya aðgengi að persónuupplýsingum hjá starfsmönnum, umboðsaðilum, verktökum og öðrum þriðju aðilum þannig að þeir einir hafa aðgang sem þurfa. Þessir aðilar munu eingöngu vinna persónuupplýsingar samkvæmt leiðbeiningum Teya auk þess sem þeir eru bundnir trúnaðarskyldu. Teya hefur innleitt verklag vegna mögulegra öryggisbrota og mun tilkynna Seljanda og Persónuvernd um slík tilvik með þeim hætti sem lög mæla fyrir um.

21.3.Teya er eitt eigandi allra gagna og upplýsinga sem eru í færslukerfi félagsins, svo sem upplýsinga tengdum kortum. Hagnýting áðurnefndra gagna takmarkast þó við notkun sem beint eða óbeint er í þágu seljandasamnings aðila og eingöngu í þeim tilgangi sem tilgreindur er í persónuverndarstefnu Teya.

21.4.Teya má ekki undir neinum kringumstæðum veita seljanda neins konar upplýsingar um korthafa.

21.5.Að því marki sem lög leyfa, er Teya heimilt að framkvæma kannanir og eftirlit á seljanda og á starfsstöð seljanda, úr fjarlægð eða í eigin persónu, til að hafa eftirlit með því hvort seljandi hlíti skilmálum samnings aðila.

21.6.Undir sérstökum kringumstæðum, þ.m.t ef Teya segir upp samningi aðila, getur Teya að kröfu kortafélaganna verið skylt að veita þeim upplýsingar um seljanda. Ennfremur, er Teya heimilt að upplýsa kortafélögin og önnur yfirvöld um einstakar færslur og/eða heildarveltu seljanda, hvort sem um er að ræða sérstök kort eða á öðrum grundvelli. Jafnframt skal Teya heimilt að veita uppgjörsbönkum sem þjóna Teya umbeðnar upplýsingar, enda sé slíkt hluti af áreiðanleikakönnun/áhættumati viðkomandi banka vegna uppgjörs við seljanda. Seljandi samþykkir slíka upplýsingagjöf af hálfu Teya og undir engum kringumstæðum skal seljandi eiga kröfu gegn Teya í tengslum við slíka upplýsingagjöf.

VII. Ábyrgð

22. Skaðleysisábyrgð seljanda

22.1.Seljandi samþykkir að tryggja skaðleysi Teya og halda Teya skaðlausu frá öllu tjóni, kröfum, aðgerðum, skaða, ábyrgðum, sektum, refsingum eða kostnaði (þ.m.t lögfræðikostnaði), sem Teya verður fyrir vegna eða í tengslum við aðgerðir sem gerðar eru af vanrækslu, ásetningi, óréttmæti eða á ólögmætan hátt af seljanda, umboðsaðilum hans eða fulltrúum (eða starfsmönnum allra framantaldra) í tengslum við seljandasamning eða því sem leiðir af broti á samingi aðila, þ.m.t sektir eða brot gegn reglum kortafélaganna eða öðrum reglum. Skaðleysisábyrgð þessi er til viðbótar við og takmarkast ekki af almennum lögbundnum réttindum sem Teya kann að hafa vegna samningsbrota seljanda, þar með talið en takmarkast ekki við réttinn til skaðabóta.

22.2.Seljandi samþykkir að Teya hafi rétt á, að eigin ákvörðun, að samþykkja, véfengja, gera samkomulag um eða á annan hátt fara með kröfumál, meintar kröfur, tap eða ábyrgðir gegn seljanda og er Teya þá ekki ábyrg fyrir þeim ákvörðunum gagnvart seljanda.

23. Takmarkanir á ábyrgð Teya

23.1.Í samræmi við ákvæði 23.3. skal Teya undir engum kringumstæðum vera ábyrgt fyrir:

(a)veltu- eða hagnaðarmissi;

(b)rekstrartjóni;

(c)missi samninga eða samkomulags;

(d)tapi á áætluðum sparnaði;

(e)eða skerðingu á viðskiptavild; eða

(f)óbeinu eða afleiddu tjóni.

23.2.Í samræmi við ákvæði 23.3 og að undanskildum skyldum Teya til að greiða uppgjörsfjárhæð vegna gildra færslna á réttum tíma, skal ábyrgð Teya á öllu tapi, kröfum eða tjóni sem stafar af eða frá brotum á seljandasamingi aðila, takmarkast við þá fjárhæð gjalda sem Teya fær frá seljanda á tólf (12) mánaða tímabili fyrir brotið.

23.3.Ekkert í ákvæðum 23.1 eða 23.2 skal takmarka ábyrgð sem óheimilt er að takmarka samkvæmt lögum.

VIII. Gildistími og lok samnings

24. Gildistími seljandasamnings

24.1.Nema annað sé tekið fram í umsókn seljanda, skal seljandasamningur gilda þar til honum er sagt upp af hálfu Teya eða seljanda í samræmi við skilmála þessa, eða þar til gerður er nýr seljandasamningur á milli Teya og seljanda eða til þess tíma er seljandasamningurinn er sannanlega ógildur.

25. Uppsögn seljanda

25.1.Seljanda er heimilt hvenær sem er að segja upp samningi aðila án ástæðu með tilkynningu þess efnis til Teya.

25.2.Til viðbótar við rétt seljanda að segja upp seljandasamningi skriflega án fyrirvara samkvæmt ákvæðum 25.1, 49.4 og 30, er seljanda heimilt að segja upp samningi aðila án fyrirvara með skriflegri tilkynningu til Teya ef eitt eða fleira af neðangreindu á við:

(a)ef Teya greiðir seljanda ekki á gjalddaga kröfur samkvæmt seljandasamningi og slíkt brot hefur ekki verið lagfært innan fjórtán (14) daga eftir að seljandi hefur tilkynnt það til Teya;

(b)Ef Teya brýtur stórvægilega gegn skilmálum seljandasamnings og leiðréttir ekki brot innan (14) daga frá því seljandi skoraði á Teya að gera úrbætur eða innan þrjátíu (30) daga ef brot telst ekki vera alvarlegt;

(c)Teya neitar að verða við skyldum samkvæmt seljandasamningi; eða

(d)ef eitthvað af eftirfarandi á sér stað í tengslum við Teya, þó með þeim fyrirvara að seljandi á ekki rétt á uppsögn í þeim tilvikum þar sem slíkt fer í bága við lög:

(i)Teya hættir að veita viðskipti;

(ii)ef ákvörðun er tekin um að slíta félaginu Teya Iceland hf.;

(iii)Teya gerir eða leitar eftir því að gerðir séu nauðasamningar eða samkomulag við kröfuhafa Teya;

(iv)Teya er ófær um að greiða eða semja um skuldir sínar eða lendir í greiðslustöðvun vegna ógreiddra skulda;

(v)skipaður er bústjóri eða skiptastjóri yfir félaginu eða eignum þess; eða

(vi)í aðstæðum sem sambærilegar eru framangreindum aðstæðum og eiga sér stað í tengslum við Teya óháð því hvaða lögsaga á við.

26. Uppsögn af hálfu Teya

26.1.Teya er heimilt hvenær sem er á samningstímanum að segja upp seljandasamningi aðila án fyrirvara og án þess að tilgreina ástæðu.

26.2.Ásamt heimild Teya til uppsagnar seljandasamnings samkvæmt ákvæði 26.1 er Teya heimilt að segja upp seljandasamningi aðila þegar í stað með skriflegum hætti ef eitt eða fleira af eftirfarandi á við:

(a)Teya er það skylt samkvæmt lögum, fyrirmælum eða reglum kortafélaganna eða samkvæmt kröfu annarra þar til bærra aðila;

(b)ef það væri ólöglegt fyrir Teya að halda áfram að veita þjónustu til seljandans;

(c)seljandi hefur, eða Teya telur að seljandinn hafi, í umsókn, í umsóknarferli eða síðar í samningssambandinu, veitt Teya ónákvæmar, ófullnægjandi eða misvísandi upplýsingar;

(d)seljandinn hefur, eða Teya telur að seljandinn hafi brotið reglur kortafélaganna og/eða önnur viðeigandi lög eða reglur;

(e)seljandinn hefur, eða Teya telur að seljandinn hafi sent inn ólögmætar færslur til Teya;

(f)ef um verulega efnislega breytingu er að ræða á starfsemi seljandans;

(g)ef seljandinn selur allar eða hluta af eigum sínum;

(h)ef seljandinn sameinast öðrum aðila (samruni) og/eða ef um breytingu á eignarhaldi er að ræða;

(i)ef seljandi, með aðgerð eða aðgerðarleysi, gerir eitthvað sem Teya telur að skaði merki, ímynd, orðspor eða viðskiptavild Teya eða á annan hátt veldur skaða eða tapi á viðskiptavild Teya eða kortafélaganna;

(j)önnur atvik, eitt eða fleiri, tengd eða ótengd (þ.m.t., og án takmarkana, óreglulegar færslur á kort, starfsemi umfram viðmiðunarmarka, heildar fjárhæð endurgreiðslna seljanda fer yfir 5% af heildarveltu seljanda í mánuði, vísbendingar um sviksamlegar eða ólögmætar færslur, breytingar á eignarhaldi eða fjárhagsstöðu seljanda) sem að mati Teya með hliðsjón af áhættustefnu hennar, geta eða eru líkleg til þess að hafa áhrif á getu seljandans til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt seljandasamningi;

(k)seljandi stendur ekki í skilum á greiðslum sem komnar eru á gjalddaga í tengslum við seljandasamning, og slíkt brot hefur ekki verið lagfært af seljanda innan fjórtán (14) daga eftir tilkynningu Teya til seljanda;

(l)seljandi brýtur gegn skilmálum seljandasamnings og hefur ekki bætt úr því innan fjórtán (14) daga frá því áskorun berst þar um eða þrjátíu (30) daga í tilviki minniháttar brota;

(m)ef seljandi hefur ekki, innan fjórtán (14) daga frá því að beiðni Teya berst til seljanda, afhent upplýsingar sem Teya telur nauðsynlegar í tengslum við meðal annars áhættumat seljanda og áreiðanleikakönnun

(n)ef seljandi hefur ekki, innan sjö (7) daga frá því að beiðni Teya berst til seljanda, orðið við kröfu Teya um framlagðar tryggingar;

(o)ef seljandi hafnar skilmálum seljandasamnings;

(p)ef forsvarsmaður seljanda kemur upp á válista/um;

(q)seljandi starfar ekki lengur innan áhættuvilja Teya samkvæmt skilgreiningu Teya hverju sinni; eða

(r)eitthvað af eftirfarandi á sér stað í tengslum við seljandann þó með þeim fyrirvara að ekki skapast uppsagnarréttur ef slíkt fer í bága við lög:

(i)seljandinn hættir viðskiptum sínum,

(ii)ákvörðun liggi fyrir eða samþykki um að slíta félagi seljanda,

(iii)seljandi hefur gert eða leitað eftir nauðasamningum eða samkomulagi við kröfuhafa sína,

(iv)seljandi getur ekki greitt skuldir sínar eða stendur frammi fyrir greiðslustöðvun vegna skulda sinna,

(v)skipaður er bústjóri eða skiptastjóri yfir félaginu eða eignum þess, eða

(vi)í þeim tilfellum sambærilegum þeim sem talin eru upp hér að framan og eiga sér stað í tengslum við seljanda óháð því í hvaða lögsögu þau gerast.

27. Uppsögn að hluta og lokun á númeri seljandasamnings

27.1.Teya og seljanda er heimilt að segja upp samningi að því marki sem hann lýtur að einu eða fleiri kortafélaganna. Tilkynning um uppsögn að hluta samkvæmt ákvæði 26 skal gerð í samræmi við ákvæði 24 og 25 (eftir því sem við á).

27.2.Hafi seljandi, sem ekki er neytandi í skilningi laga um greiðsluþjónustu, ekki sent inn færslur til Teya í þrjá (3) mánuði, án þess að upplýsa fyrirfram um ástæðu þess, er Teya heimilt án fyrirvara að loka seljandanúmeri/(um) seljanda. Seljanda er heimilt að óska eftir enduropnun ef ekki eru liðnir fleiri en þrír (3) mánuðir frá lokun Teya á seljandanúmeri/(um).

28. Afleiðingar uppsagnar

28.1.Við uppsögn eða lokun seljandasamnings samkvæmt ákvæði 26.1 og 26.2 skal seljandi tafarlaust hætta að senda inn færslur til Teya og hætta notkun á öllum merkjum kortafélaganna og merkjum í eigu Teya, að undanskildu því sem fram kemur í ákvæði 27, auk þess falla skyldur Teya skv. seljandasamningi niður.

28.2.Á uppsagnarfresti mun uppsögn sem tilkynnt hefur verið um, en hefur ekki tekið gildi, ekki hafa áhrif á ábyrgðir sem stofnast til eða verða til vegna eða í tengslum við atburði sem eiga sér stað á meðan eða áður en uppsögn tekur gildi. Með fyrirvara um réttindi Teya til að halda eftir uppgjöri eða önnur réttindi Teya samkvæmt seljandasamningi þá skal Teya að öllu jöfnu greiða seljanda allar gildar færslur sem sendar eru inn fyrir gildistöku uppsagnar á næsta uppgjörsdegi eftir uppsögn.

28.3.Þrátt fyrir uppsögn á seljandasamningi halda ákvæði 6, 7, 13-19, 21, 22, 37 og 38 skilmála gildi sínu að fullu sem og önnur ákvæði seljandasamnings sem eðli máls samkvæmt ættu samkvæmt túlkun að halda gildi sínu að fullu.

IX. Breytingar

29. Réttur Teya til að breyta seljandasamningi

29.1.Teya getur hvenær sem er gert breytingar á seljandasamningi, þar með talið á þjónustugjöldum, vaxta- og verðskrá, leiðbeiningum sem og skilmálum þessum.

29.2.Í samræmi við ákvæði 29. gr. munu breytingar á seljandasamningi taka gildi frá og með þeirri dagsetningu sem Teya tilgreinir og munu breytingarnar þá gilda um samningssamband Teya og seljanda frá og með þeim degi. Ef seljandi segir ekki upp seljandasamningi í samræmi við ákvæði 30. gr., telst seljandi hafa samþykkt breytingarnar.

29.3.Teya er heimilt að breyta hámarksfjárhæð færslu án heimildar (e. Merchant Floor Limit) hvenær sem er og af hvaða ástæðu sem er, og er Teya jafnframt heimilt að skilgreina sérstaklega hámarksfjárhæð færslu án heimildar fyrir merki hvers kortafélags.

29.4.Óski seljandi eftir breytingum á upplýsingum á samningi skal slík beiðni berast úr skráðu netfangi seljanda. Breytingar sem lúta að þóknun, uppgjörsreikningi eða vörum skal staðfesta með undirritaðri breytingabeiðni af hálfu prókúruhafa. Teya getur einnig eftir atvikum krafist undirritunar á uppfærðan nýjan samning eða viðauka við seljandasamning vegna breytinga.

30. Tilkynning um breytingar

30.1.Teya getur breytt seljandasamningnum hvenær sem er án fyrirvara. Teya mun veita seljanda skýrar og aðgengilegar upplýsingar um breytingarnar.

30.2.Að því marki sem heimilt er samkvæmt lögum, getur Teya í því sjónarmiði að uppfylla lagaskyldur, reglur kortafélaganna, önnur regluverk eða kröfu stjórnvalda, tilkynnt um breytingar á ákvæðum seljandasamnings með styttri fyrirvara en tilgreint er í ákvæði 29.1. Teya skal tilkynna seljanda um slíkar breytingarnar svo fljótt sem auðið er.

30.3.Teya er heimilt að breyta vöxtum og gengi gjaldmiðla á hvaða tímapunkti sem er án fyrirvara, þegar slíkar breytingar byggjast á breytingum á tilgreindu viðmiðunargengi eða gengi gjaldmiðla.

30.4.Teya er heimilt að breyta hámarksfjárhæð færslu án heimildar (e. Merchant Floor Limit) án þess að tilkynna fyrirfram um slíkar breytingar til seljanda.

31. Réttur seljanda til að segja upp samningi

31.1.Ef seljandi samþykkir ekki breytingar á seljandasamningi, getur seljandi sagt seljandasamningi upp skriflega og tekur uppsögnin þá gildi samstundis og án kostnaðar.

31.2.Uppsögn af hálfu seljanda í samræmi við ákvæði 30.1 skal senda Teya í síðasta lagi daginn fyrir dagsetninguna sem breytingarnar eiga að taka gildi. Að því gefnu að Teya hafi veitt seljanda tveggja (2) mánaða fyrirvara í samræmi við ákvæði 29.2 er seljanda heimilt að senda Teya uppsagnarbréf í samræmi við ákvæði 30.1 innan tveggja (2) mánaða frá því að Teya tilkynnti seljanda um breytingarnar.

X. Ýmis ákvæði

32. Force Majeure

32.1.Teya undanskilur sig ábyrgð vegna taps, skemmda eða útgjalda sem má beint eða óbeint rekja til bilunar eða tafa við að framkvæma þjónustu sína samkvæmt seljandasamningi, ef tjón má rekja til utanaðkomandi aðstæðna (e. Force Majeure Event), og ef Teya hefur ekki misfarist að grípa til aðgerða til að takmarka tjónið. Slíkar utanaðkomandi aðstæður eru meðal annars en takmarkast ekki við: stríð, hernaðaraðgerðir, hryðjuverk, uppþot, borgarastyrjaldir, skemmdarverk, slys, eyðileggingu eða skemmdir á rafrænum búnaði, fjarskiptum eða öðrum búnaði, eldsvoð, flóð, náttúruhamfarir, verkföll, verkbönn eða aðrar vinnudeilur (hvort sem um starfsmenn Teya er að ræða eður ei), lagaboð, farsóttir, heimsfaraldur eða stjórnvaldsaðgerðir.

32.2.Ef til atburða vegna utanaðkomandi aðstæðna kemur (e. Force Majure Event) getur Teya ákveðið að stöðva viðskipti samkvæmt seljandasamningi. Í slíkum tilfellum og eftir því sem kostur er mun Teya hafa samband við seljanda (eða seljandi hefur samband við Teya eftir því sem hentugast er fyrir aðila hverju sinni) og gera tilraun til að komast að viðunandi niðurstöðu í málinu. Teya skal grípa til þeirra aðgerða sem skynsamlegar geta talist í viðkomandi aðstæðum til að geta sinnt skyldum sínum samkvæmt seljandasamningi.

33. Heildarsamningur

33.1.Seljandasamningurinn telst heildarsamningur milli seljanda og Teya og skulu eldri samningar um sama efni samstundis falla úr gildi þegar seljandasamningur þessi tekur gildi. Að því undanskildu að aðilar halda öllum áunnum réttindum og skyldum samkvæmt fyrri samningum.

33.2.Til að taka af allan vafa, í þeim tilvikum þar sem núverandi seljandi gerir nýjan seljandasamning eingöngu vegna starfsstöðvar seljanda eða þar sem vörubirgðir eða þjónusta fellur ekki undir núverandi seljandasamning, þá skulu slíkir nýir samningar vera til viðbótar núverandi samningi nema samningar aðila kveði á um annað.

34. Útvistun og notkun undirvinnsluaðila og umboðsaðila

34.1.Seljanda er ekki heimilt að framselja eða flytja að hluta eða fullu réttindi sín eða skyldur samkvæmt seljandasamningi án þess að hafa áður fengið til þess skriflegt samþykki Teya.

34.2.Teya er heimilt að framselja og flytja réttindi sín samkvæmt seljandasamningi án leyfis frá seljanda.

34.3.Teya áskilur sér einnig rétt til að uppfylla skyldur sínar og verkefni samkvæmt seljandasamningi með því að nýta sér þjónustu umboðsaðila eða undirverktaka. Allir slíkir umboðsaðilar eða undirverktakar sem Teya nýtir skulu ávallt vinna undir merkjum Teya og Teya skal vera ábyrgt vegna verka þeirra gagnvart seljanda í samræmi við ákvæði seljandasamnings.

34.4.Teya er heimilt, án takmarkana, að nota umboðsaðila til að veita ákveðna þjónustu til seljanda. Í þeim tilvikum sem Teya notar umboðsaðila, eru upplýsingar um umboðsaðila tilgreindar í umsókn um seljandasamning eða með öðrum hætti tilkynntir af hálfu Teya til seljanda. Til að taka af allan vafa, teljast umboðsaðilar vera þjónustuveitendur fyrir Teya en ekki fyrir seljanda. Samningssamband seljanda er við Teya en ekki umboðsaðilann, hvort heldur sem umboðsaðilinn hefur meðundirritað umsóknina um seljandasamninginn eður ei.

35. Ógilding

35.1.Ef einhver ákvæði samningsins eru dæmd ógild, ólögleg eða ófullnægjandi skal slíkt ekki hafa áhrif á réttleika, lagagildi eða því að fara megi að öðrum ákvæðum samningsins. Seljandasamninginn skal þá túlka þannig að umrædd ákvæði hafi aldrei verið hluti hans og þeim ákvæðum þá skipt út fyrir orðalag sem samkomulag er um og er í sem mestu samræmi við upphaflegan tilgang ákvæðisins.

36. Engar undanþágur eða breytingar

36.1.Undanþága sem Teya veitir vegna brots á seljandasamningi skal ekki gilda um síðari eða ítrekuð brot. Hvorki mistök né tafir af hálfu Teya í að nýta slíkan rétt skulu hafa áhrif á réttindi Teya samkvæmt seljandasamningi og þá sérstaklega ekki að hafa áhrif á þann rétt Teya til að nýta sér rétt sinn til að rifta seljandasamningi, hvenær sem er án takmarkana, óháð því hvort að aðstæður þær sem gáfu tilefni til slíkrar beitingar eru enn til staðar eður ei.

37. Tilkynningar

37.1.Teya er heimilt að senda seljanda tilkynningar með eftirfarandi hætti:

(a)með pósti eða með því að afhenda í eigin persónu eða boðsenda tilkynningu á skráð heimilisfang skrifstofu seljanda eða heimilisfang starfsstöðvar samkvæmt upplýsingum í umsókn um seljandasamning eða á annað heimilisfang sem tilgreint er í umsókn fyrir tilkynningar. Tilkynning skal taka gildi frá og með afhendingu eða ef um póstsendingu er að ræða tveim virkum dögum eftir póstlagningu sendingar innanlands eða fimm virkum dögum frá póstlagningu millilandasendingar.

(b)með tölvupósti á það netfang sem seljandi skráði í umsókn um seljandasamning eða það netfang sem seljandi hefur á hverjum tíma. Tilkynning telst hafa verið birt seljanda þegar hún hefur verið send af Teya með ofangreindum hætti;

(c)þegar Teya gerir seljanda tilkynninguna aðgengilega á þjónustuvef; eða

(d)þegar tilkynning berst gegnum umboðsaðila. Þetta á þó einungis við þegar Teya veitir þjónustu til seljanda gegnum umboðsaðila. Þegar Teya nýtir þjónustu umboðsaðila getur félagið hvort sem er sent tilkynningar beint eða í gegnum umboðsaðilann.

37.2.Seljandi getur sent Teya tilkynningar með eftirfarandi hætti:

(a)með pósti, eða með því að afhenda í eigin persónu eða boðsenda á heimilisfang sem skráð er í umsókn um seljandasamning. Ef ekkert heimilisfang er þar skráð fyrir tilkynningar þá skal senda til Teya Iceland hf., Katrínartún 4, 105 Reykjavík, Iceland, b/t. Framkvæmdastjóra Færsluhirðingar. Tilkynning skal taka gildi frá móttöku eða í tilfelli innlendrar póstsendingar tveim virkum dögum eftir að hún var póstlögð og fimm virkum dögum frá póstlagningu millilandasendingar; eða

(b)með tölvupósti á það netfang sem tilgreint er á umsókn um seljandasamning, eða ef ekkert netfang er þar tilgreint þá á netfangið hjalp@teya.com. Í þeim tilfellum skal tilkynningin teljast móttekin þegar Teya hefur móttekið tölvupóstinn.

37.3.Allar tilkynningar skulu gerðar á því tungumáli sem tilgreint er í umsókn um seljandasamning eða á ensku. Ef ekkert tungumál er tilgreint vegna tilkynninga í umsókn um seljandasamning þá skulu tilkynningar vera á íslensku eða ensku, þ.e. ef starfsstöð seljanda er á Íslandi, og ensku fyrir aðra seljendur.

38. Raðgreiðsluvefur

38.1.Seljandi getur óskað eftir því að bjóða korthöfum upp á neytendalán á vegum Teya . Hafi Teya samþykkt slíka umsókn er seljanda heimilt að bjóða þjónustuna í gegnum raðgreiðsluvef Teya. Neytendalán getur ýmist borið vexti eða verið vaxtalaust. Bjóði seljandi upp á vaxtalaus lán ber hann ábyrgð á greiðslu vaxta til félagsins. Seljandi sem aðgengi hefur að raðgreiðsluvef skuldbindur sig til að fara í einu og öllu að skilmálum þessum um vefinn. Félagið lætur seljanda í té notandanafn og aðgangsorð (leyniorð) að raðgreiðsluvef félagsins. Notkun aðgangsheimilda er alfarið á ábyrgð seljanda.

38.2.Seljandi skal ganga úr skugga um að lántaki sé réttmætur korthafi þess korts sem lán er skráð á. Teya er heimilt að endurkrefja seljanda um fjárhæð láns ef í ljós kemur að um falsaða undirritun á lánssamningi er að ræða, lántaki er ekki réttmætur korthafi, vara eða þjónusta er ekki afhent eða ef seljandi eða starfsmaður hans hafa ekki fylgt skilmálum þessum. Kjósi seljandi að veita viðskiptavinum sínum lán með rafrænum hætti, án undirskriftar lántakanda ber seljandi ábyrgð á þeim lánssamningum sem ágreiningur rís um.

38.3. Seljanda er óheimilt að stofna neytendalán vegna annarrar tegundar viðskipta en tilgreind er í þjónustusamning hans við félagið.

38.4. Undir engum kringumstæðum má seljandi endurgreiða lán beint til korthafa heldur skal lán endurgreitt til Teya sem sér um að gera upp við korthafa.

38.5. Teya sér ekki um milligöngu né tekur ábyrgð vegna ágreinings sem kann að rísa á milli seljanda og korthafa vegna gæða vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með neytendaláni. Korthafi skal snúa sér beint til seljanda vegna slíkra mála. Sé ágreiningur um lögmæti láns ber seljandi, en ekki Teya , ábyrgð á því tjóni sem hlýst vegna þess.

38.6. Teya er heimilt að loka fyrir raðgreiðsluvef ef annað hvort seljandi eða félagið hefur sagt upp/rift þjónustusamningi milli aðilanna.

XI. Lög og varnarþing

39. Lög sem gildi um samninginn

39.1Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Ágreiningsmál vegna þeirra má rekja fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

40. Úrlausn ágreiningsmála

40.1.Ef seljandi er ósáttur við þjónustu Teya er seljanda heimilt að senda kvörtun til Teya. Stefna Teya um meðhöndlun kvartana sem og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Teya.

40.2.Seljandi getur jafnframt skotið ágreiningsmálum til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Nánari upplýsingar um úrskurðarnefndina má finna á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is. Úrskurður nefndarinnar kemur ekki í veg fyrir síðari umfjöllun dómstóla um málefnið.

XII. Sérstakir skilmálar fyrir færslur þar sem kort er ekki á staðnum

41. Gildissvið og umsókn

41.1.Þessir sérstöku skilmálar gilda fyrir alla seljendur sem taka við færslum þar sem kort er ekki á staðnum. Fari slíkar færslur í gegn um netið gilda auk þess sérstakir skilmálar Teya fyrir netseljendur.

41.2.Þessir sérstöku skilmálar eru viðbót við almenna skilmála Teya og er ekki ætlað að ganga framar né koma í staðinn fyrir ákvæði almennra skilmála Teya þó að því gefnu að stangist skilmálar þessir á við almenn ákvæði þá skulu skilmálar þessir gilda.

42. Heimild til að gera færslur á kort þegar kort er ekki á staðnum

42.1.Seljanda er aðeins heimilt að senda inn færslur sem gerðar eru án þess að kort sé á staðnum ef um það hefur verið samið í seljandasamningi milli seljanda og Teya.

43. Skráning upplýsinga

43.1.Þegar um er að ræða færslur sem gerðar eru án þess að kort sé á staðnum skal seljandi fá eftirfarandi upplýsingar frá korthafa:

(a)kortnúmer;

(b)gildistíma kortsins;

(c)öryggisnúmer;

(d)nafn korthafa og upphafsstafi nafns hans;

(e)ef við á, lögheimili korthafa;

(f)ef við á, heimilisfang sem afhenda á vöru á, ef annað en lögheimili korthafa; og

(g)þær viðbótarupplýsingar sem Teya tilkynnir seljanda skriflega um að hann þurfi að afla.

44. Færslukvittanir

44.1.Óski korthafi þess skal senda honum afrit færslukvittunar þá með tölvupósti eða öðrum hætti s.s. rafrænum hætti eða í pósti.

XIII. Sérstakir skilmálar fyrir netseljendur

45. Gildissvið og umsókn

45.1.Þessir sérstöku skilmálar skulu gilda fyrir alla seljendur sem taka við kortafærslum gegnum netið.

45.2.Þessir sérstöku skilmálar eru viðbót við önnur ákvæði almennra skilmála Teya sem ekki er ætlað að ganga framar né koma í stað ákvæða almennra skilmála Teya þó að því gefnu að stangist skilmálar þessir á við almenn ákvæði þá skulu skilmálar þessir gilda.

46. Heimild til að taka við greiðslum á netinu

46.1.Eingöngu seljendur sem hafa fengið til þess sérstaka heimild Teya mega taka við gildum netfærslum sem greiðslu.

46.2.Staðsetning seljanda telst vera sú vefsíðuslóð sem tilgreind er í umsókn um seljandasamning.

46.3.Seljandi skal gæta þess að greiðslur sem gerðar eru yfir netið séu réttilega merktar sem netgreiðslur.

47. Upplýsingagjöf á vefsíðum

47.1.Seljandi skal með skilmerkilegum hætti birta eftirfarandi upplýsingar á þeim vefsíðum sem tekur við kortafærslum sem greiðslu:

(a)merki kortafélaganna skulu birt í fullum litgæðum með sama hætti og á sama stað og tilgreindar eru aðrar greiðsluleiðir;

(b)fullnægjandi lýsingu á vöru eða þjónustu sem er til sölu á vefsíðunni;

(c)skila – og endurgreiðslustefnu seljanda;

(d)skilmála og skilyrði kaupa ef við á;

(e)“smella til að samþykkja” hnapp eða aðra staðfestingu sem sýnir fram á að korthafinn hafi samþykkt skila- og endurgreiðslustefnu seljanda.

(f)upplýsingar um þjónustutengilið seljanda og netfang eða símanúmer;

(g)heimilisfang fastrar starfsstöðvar seljanda og heimilisfang útibús seljanda;

(h)upplýsingar um færslumynt;

(i)upplýsingar um takmarkanir á útflutningi ásamt upplýsingum um aðrar takmarkanir samkvæmt lögum (ef þekktar);

(j)afhendingarstefnu seljanda;

(k)persónuverndarstefnu seljanda;

(l)upplýsingar um í hvaða landi útibú seljanda er á þeim tíma sem greiðsluleiðir eru boðnar korthafa;

(m)öryggisstig seljanda og stefnu um flutning kortaupplýsingar; og

(n)birtingu seljandaskilmála í pöntunarferli, annað hvort:

(i)á þeim skjá þar sem gengið er frá greiðslu eða þar sem tilgreind er heildarfærsluupphæð, eða

(ii)innan þeirrar raðar af vefsíðum sem korthafi þarf að fara í gegnum áður en hann kemur að greiðslusíðunni.

48. Færslukvittanir

48.1.Þegar um er að ræða netfærslu skal birta korthafa kvittun í prentformi eftir að hann samþykkir kaupin. Krefjist korthafi þess skal afrit færslukvittunar sent honum með tölvupósti eða öðrum rafrænum leiðum.

49. Öryggi á netinu

49.1.Seljandi sem tekur við kortafærslum á netinu skal tryggja að kortnúmer séu varin við miðlun og vistun. Seljendur eru hvattir til þess að nýta sýndarnúmeraþjónustu Teya í þessu tilliti.

49.2.Teya áskilur sér rétt til að hafna ákveðnum netfærslum ef 3D Secure þjónusta er ekki nýtt. Ef 3D Secure er notað skal auðkenning korthafa við hverja heimildabeiðni vera með þeim hætti sem útgefandi kortsins hefur ákvarðað.

50. Notkun á samstarfsaðilum

50.1.Seljandi skal ekki án samþykkis Teya nýta samstarfsaðila í þeim tilgangi að auka umferð um vefsíðu sína. Teya er hvenær sem er heimilt að biðja um afrit af samningum seljanda og samstarfsaðila hans.

51. Veltutrygging og öryggi

51.1.Teya er heimilt að stofna til veltutryggingar til að tryggja endurheimt Teya vegna hvers konar gjalda og/eða annarra fjárhæða sem seljandi skuldar, eða mun fyrirsjánlega skulda Teya , samkvæmt seljandasamningi eða við brot seljanda á seljandasamningi.

51.2.Ef Teya stofnar til veltutryggingar skal Teya draga fjárhæð tryggingarinnar af færsluupphæðum seljanda til að fjármagna veltutrygginguna.

51.3.Frádráttur vegna veltutryggingar skal vera tilgreindur í umsókn eða tilkynntur af Teya til seljanda með öðrum hætti. Ef frádráttur veltutryggingar er ekki tilgreindur í umsókn um seljandasamning né hafi Teya tilkynnt um frádráttinn vegna veltutryggingar til seljanda með öðrum hætti skal frádráttur vera núll. Teya áskilur sér rétt til að breyta frádrætti vegna veltutryggingar hvenær sem er með tilkynningu til seljanda, þar með talið ef starfsemi eða athafnir seljanda hafa gefið Teya ástæðu til að telja að núverandi frádráttur vegna veltutryggingar geti ekki með fullnægjandi hætti tryggt Teya vegna starfsemi umfram viðmiðunarmörk, aukningar í færslumagni umfram upphaflega áætlun seljanda, viðvörunum eða mati kortafélaganna sem og neikvæðrar eða versnandi fjárhagsstöðu seljanda.

51.4.Tilkynning um stofnun veltutryggingar eða breytingu á prósentuhlutfalli frádráttar skal senda til seljanda að minnsta kosti tveimur 2 vikum fyrir fyrsta frádrátt af uppgjöri vegna veltutryggingar eða þeim tíma sem áætlað er að breyting á frádrætti vegna veltutryggingar af uppgjöri taki gildi. Ef Teya tilkynnir seljanda um stofnun veltutryggingar eða breytingu á veltutryggingu getur seljandi sagt seljandasamningi upp án fyrirvara áður en að breytingarnar taka gildi og tekur þá uppsögn gildi samstundis.

51.5.Teya er heimilt að nota allt fjármagn úr veltutryggingu til að greiða hver þau gjöld og/eða aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya. Allar greiðslur af veltutryggingu skulu skráðar af Teya.

51.6.Frádráttur vegna veltutryggingar vegna allra færslufjárhæða innan mánaðar skal, í samræmi við önnur ákvæði seljandasamnings, greiða sex (6) mánuðum eftir síðasta dag þess mánaðar sem færsla var send inn. Til dæmis, frádráttur vegna veltutryggingar í maí, að því marki sem hann er ekki nýttur til að greiðslu endurkrafna, endurgreiðslna, þóknana eða annarra skulda seljanda við Teya og í samræmi við önnur ákvæði seljandasamnings, verður greiddur seljanda á næsta uppgjörsdegi eftir 30. nóvember. Teya heldur áfram að greiða af fjárhæð veltutryggingar mánaðarlega eftir uppsögn seljandasamnings.

51.7.Seljandi skal einungis hafa rétt á greiðslum úr veltutryggingu frá og með þeirri dagsetningu sem tilgreind er í ákvæði 49.6 í samræmi við rétt Teya til að halda eftir greiðslum samkvæmt seljandasamningi. Teya mun greiða fjárhæðir úr veltutryggingu á sem hagkvæmastan hátt fyrir Teya . Seljandi hefur ekki rétt á neinum vöxtum á fjárhæðir sem geymast í veltutryggingu.

51.8.Með því að samþykkja skilmála seljandasamnings veitir seljandi Teya heimild til að halda eftir öllum fjárhæðum sem Teya skuldar seljanda til tryggingar skuldum seljanda við Teya , hvort heldur þær tengjast seljandasamningi eður ei, sem og til tryggingar greiðslu fjárhæða sem Teya ber lögum samkvæmt að standa skil á vegna seljanda.

51.9.Réttindi Teya vegna veltutryggingar og önnur réttindi samkvæmt ákvæði 18.4 skulu gilda áfram þrátt fyrir að seljandasamningi sé sagt upp.